Stefna USVH 2018-2022

Íþróttaleg stefna

 • Að iðkendur nái sem bestum tökum á íþrótt sinni út frá eigin forsendum
 • Að boðið sé upp á æfingar fyrir alla aldurshópa
 • Að lágmarka brottfall iðkenda úr íþróttum
 • Að hvetja aðildafélög til að vera með menntaða þjálfara
 • Að styrkja afreksíþróttamenn frá héraðinu svo þeir geti stundað æfingar og keppni fyrir landslið Íslands
 • Að styrkja þjálfara til að mennta sig
 • Að styrkja ungt og efnilegt íþróttafólk til að sækja sér reynslu og þekkingu út fyrir hérað
 • Vekja áhuga fólks á Landsmótum UMFÍ og hvetja fjölskyldur til að fara og taka þátt

Félagsleg stefna

 • Að iðkendum líði vel og hafi gaman af æfingum og keppni
 • Að iðkendum finnist þeir ætíð velkomnir til þátttöku í íþróttastarfi
 • Að virkja foreldra til að koma að íþróttastarfi barna sinna
 • Að vekja athygli á hegðunarviðmiðum og siðareglum sem ÍSÍ gefur út og hvetja félög til að framfylgja þeim
 • Að iðkendur séu félagi sínu og héraði til sóma innan vallar sem utan

Stefna í umhverfismálum

 • Að hvetja til sparnaðar í akstri t.d með því sameinast um bíla þegar farið er á æfingar og/eða mót utan héraðs
 • Að hvetja iðkendur til að ganga eða hjóla á æfingar
 • Að allur pappír sé að öllu jöfnu losaður á sérstakar losunarstöðvar og að pappír sé notaður í sem minnsta magni
 • Að ruslafötur séu sýnilegar á æfinga- og keppnissvæðum
 • Að tiltekt fari fram á svæði eftir æfingar/keppnir eða aðra viðburði á vegum sambandsins
 • Að hvetja til notkunar á margnota drykkjarbrúsum frekar en einnota
 • Að rusl sé flokkað eftir bestu getu í hvert sinn
 • Að íþróttasvæðið sé reyklaust
 • Að bílar séu ekki í lausagangi við íþróttamannvirki
 • Að börn og unglingar séu hvött til að drekka vatn
 • Að hugsað sé fyrir aðgengi fyrir fatlaða
 • Að mannvirki, áhöld og fleira þess háttar sem notað er við íþróttaiðkun séu úr góðum, umhverfisvænum og eiturefnalausum efnum

Stefna íþróttaþjálfunar

Börn og ungmenni:

USVH hefur það að leiðarljósi að íþróttaiðkun skuli vera þroskandi, líkamlega, sálrænt og félagslega.  Með íþróttaiðkun myndi börn og ungmenni jákvæð félagsleg tengsl, þau hafi ánægju og gleði af iðkuninni, hún sé fjölbreytt, hafi forvarnargildi og sé heilsueflandi.  Börn og ungmenni verði þannig meðvitaðri um eigin heilsu og öðlist þekkingu á hollum og heilbrigðum lífsháttum. Íþróttaiðkun aðstoði börn og ungmenni til að vera með gagnrýna hugsun gagnvart fyrirmyndum og samfélagsmiðlum.  Hún efli samfélagsvitund, samkennd og hópanda en einblíni ekki á of mikla samkeppni.

Með skipulegri og markvissri þjálfun má skapa börnum og ungmennum aðstæður til að verða afreksmenn seinna meir á lands- eða alþjóðamælikvarða þegar þeir hafa mesta líkamlega og sálræna hæfileika til þess. Að sama skapi er gert ráð fyrir að þeir sem ekki velja afreksmennsku eða keppnisíþróttir fái tækifæri til að stunda íþróttir eða líkamsrækt við sitt hæfi.

USVH hvetur til þátttöku á Unglingalandsmóti UMFÍ.

 

Fullorðnir:

Íþróttaiðkun efli jákvæð félagsleg tengsl, efli heilsuvernd og hafi forvarnargildi.  Mikilvægt að framboð íþróttagreina sé fjölbreytt svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Með íþróttum fyrir fullorðna er verið að fjölga fyrirmyndum barna og ungmenna í samfélaginu og skapa fjölbreyttara íþróttalíf á staðnum.  Ef foreldrar eru virkir aukast líkur á að börnin séu það sömuleiðis. Huga skal vel að eldri borgurum og mikilvægt að kenna að það sé aldrei of seint að byrja að hreyfa sig.

USVH skal standa fyrir ýmiskonar hvatningarverkefnum til að fá fólk af stað en hægt er að gera það í gegnum verkefni á vegum ÍSÍ og UMFÍ, s.s hjólað í vinnuna og hreyfivika. USVH vill huga vel að eldri borgurum, virkja þá til hreyfingar og búa til aðstæður þar sem þeir hafa möguleika á hreyfingu.

USVH hvetur til þátttöku á Landsmóti UMFÍ og Landsmóti 50+

Stefna í fræðslu og forvarnarstarfi

Íþróttastarf er uppeldisstarf.  Þar læra börn og unglingar að fylgja settum reglum og að temja sér hollar lífsvenjur.  Vegna þessa eru þjálfarar mikilvægar fyrirmyndir og nauðsynlegt að þeir sinni starfi sínu með það í huga.  Einnig er mikilvægt að þeir framúrskarandi íþróttamenn sem til staðar eru í héraðinu séu sýnilegir og aðgengilegir börnum og unglingum.  Þá er nauðsynlegt að þeir geri sér grein fyrir mikilvægi sínu sem jákvæð fyrirmynd þeirra og séu viljugir til að gefa sig að þeim.

USVH hefur það að leiðarljósi að starfa eftir stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni og hvetur aðildarfélög sín til þess sama.

USVH tekur skýra afstöðu gegn neyslu allra vímuefna í tengslum við íþróttir.  USVH hvetur þjálfara aðildarfélaga sinna og alla iðkendur til að forðast öll þau efni sem dregið geta úr árangri þeirra í íþróttinni og skaðað heilsu þeirra. Þjálfarar og eldri iðkendur eru fyrirmyndir yngri iðkenda bæði í orði og í verki.  Sambandið hvetur þá til að standa vörð um þá miklu ábyrgð sem þeir bera gagnvart iðkendum.

USVH er andvígt allri neyslu áfengis, tóbaks og annarra vímuefna allra iðkenda, þjálfara, fararstjóra og annarra félagsmanna eða aðila sem koma að íþróttastarfi á vegum USVH. Öll neysla vímuefna hvers konar er bönnuð í tengslum við æfingar, fjölskyldumót og keppnir á vegum sambandsins. Áfengis- og/eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf, s.s. áfengissala í tengslum við íþróttakeppnir, áfengisneysla í lokahófum, reykingar og munntóbaksneysla á íþróttasvæðum og áfengis- eða tóbaksauglýsingar á eða við velli eða á búningum.

Sambandið mun bregðast sérstaklega við allri vímuefnaneyslu iðkenda undir 20 ára aldri. Þá verða foreldrar félagsmanna undir 18 ára aldri undantekningarlaust látnir vita af slíkri neyslu. Kvikni grunur um neyslu ólöglegra vímuefna skulu þjálfarar hafa samráð við fagaðila, þar með talið lögreglu, um viðbrögð við slíkum málum. Viðbrögð sambandsins við brotum verða í formi tilmæla og ábendinga. Skili viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundins banns frá æfingum og/eða keppni. Viðbrögð skulu miðast við að aðstoða iðkandann við að laga sig að reglunum og að hann fái færi á að halda áfram starfi innan sambandsins.

Hjá sambandinu er lögð áhersla á vináttu, gagnkvæma virðingu og góð samskipti. Einelti og kynferðislegt áreiti er ekki liðið. Mikilvægt er að iðkendum finnist skemmtilegt að stunda íþróttir og að þeim líði vel. Einnig er mikilvægt að þjálfarar hvetji iðkendur með jákvæðum hætti og að iðkendur hrósi hvor öðrum þegar vel er gert.  Mikilvægt er að gagnkvæm virðing einkenni öll samskipti innan sambandsins, hvort sem um er að ræða samskipti milli eða innan stjórnar, þjálfara, iðkenda, foreldra/forráðamann iðkenda, styrktaraðila eða aðra samstarfsaðila. Ef grunur um einelti eða kynferðislegt áreiti eða ofbeldi vaknar skal tilkynna það til yfirmanns sem upplýsir síðan foreldra hið fyrsta.  Bæklingarnir “Aðgerðaráætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun” og “Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum” ásamt bæklingnum “Viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum” sem gefnir eru út af ÍSÍ eru leiðbeinandi fyrir þau verkferli sem ættu að fylgja í kjölfarið. USVH hvetur forsvarsmenn og starfsmenn aðildarfélaga sinna til að kynna sér þessa bæklinga og hafa þá aðgengilega við íþróttamannvirki sín og á heimasíðu.

Stefna í jafnréttismálum

Ungmennasambandið leggur áherslu á að innan þeirra vébanda sé gætt að almenns jafnréttis. Ekki skal gera upp á milli barna og unglinga vegna uppruna, þjóðfélagsstöðu, fötlunar, búsetu, þjóðernis, litarháttar eða kyns. Hver einstaklingur hefur þann rétt að vera metinn að eigin verðleikum. Allir iðkendur innan héraðssambandsins skulu hafa sama aðgang að aðstöðu, þjálfun og fjármagni. Stefna USVH er að gæta jafnréttis í starfi sínu og fer fram á við aðildarfélög sín að þau sinni til jafns kröfum beggja kynja til íþróttaiðkunar. Þetta á meðal annars við um aðstöðu, fjármagn og þjálfun. USVH hvetur aðildarfélög sín sem hafa þjálfara sem eru með jafna menntun, reynslu og aldur fái að njóta sömu kjara óháð kyni og óháð því hverja viðkomandi þjálfar. Stefna USVH er að í stjórn séu bæði karlar og konur til að tryggja að raddir beggja kynja heyrist við stjórnun héraðssambandsins.