Reglugerð um styrktarsjóð

1. grein
Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður USVH og Húnaþings vestra.

2. grein
Tilgangur sjóðsins er að styrkja afreksfólk, afreksefni og afrekshópa til æfinga og keppni.

3. grein
Stjórn sjóðsins er skipuð aðalstjórn USVH á hverjum tíma.

4. grein
Tekjur sjóðsins eru ákveðið hlutfall tekna USVH af Íslenskri getspá, samkvæmt ákvörðun héraðsþings USVH hverju sinni ásamt framlagi sveitarfélagsins Húnaþings vestra samkvæmt gildandi samningi hverju sinni ásamt frjálsum framlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja.

5. grein
Úthlutað er úr styrktarsjóði tvisvar á hverju ári, í apríl og nóvember. Í fyrri úthlutuninni er einungis heimilt að úthluta 50% af áætluðum tekjum sjóðsins ásamt 50% af tekjuafgangi fyrra árs sé hann einhver. Í seinni úthlutuninni er heimilt að úthluta því fjármagni sem eftir er af tekjum ársins og tekjuafgangi fyrra árs sé hann einhver.
Þeim fjármunum sem safnast hafa í sjóðnum og ekki hefur verið úthlutað, má nýta í sérstök verkefni á vegum USVH.

6. grein
Sjóðsstjórn skal halda gerðarbók og þar skulu skráðar allar umsóknir og afgreiðslur umsókna.
Sjóðsstjórnin skal setja sér vinnureglur fyrir sjóðinn á fyrsta fundi.

7. grein
Afreksfólk, afreksefni og afrekshópar sem uppfylla að minnsta kosti annað af neðangreindum skilyrðum á rétt á úthlutun úr sjóðnum samkvæmt vinnureglum sjóðsins hverju sinni.
ü Eru með lögheimili í Húnaþingi vestra og hafa verið með það í að minnsta kosti 1 ár.
ü Hafa keppt undir merkjum USVH eða aðildarfélaga þess í viðkomandi íþróttagrein á síðast liðnum 6 mánuðum og eru ennþá skráð/ur iðkandi/keppandi aðildarfélags USVH í viðkomandi grein.

8. grein
USVH auglýsir á sannanlegan hátt eftir umsóknum í Styrktarsjóðinn með að minnsta kosti 14 daga fyrirvara. Til að hljóta styrk þarf viðkomandi íþróttamaður og/eða félag að sækja um á þar til gerðu eyðublaði, samkvæmt vinnureglum sjóðsins.
Sjóðsstjórnin getur einnig veitt einstakling og hóp styrk þó ekki liggi fyrir umsókn telji hún það samræmast reglugerð þessari og vinnureglum sjóðsins.
Útborganir úr sjóðnum eru samkvæmt vinnureglum sjóðsins.

9. grein
Sjóðsstjórn skal á hverju ársþingi USVH gera grein fyrir styrkveitingum úr sjóðnum.

10. grein
Sjóðurinn er hluti af samstæðu ársreikning USVH. Endurskoðendur USVH eru jafnframt endurskoðendur reikninga sjóðsins.

Samþykkt á 77. Héraðsþingi USVH 14. mars 2018.