Lög USVH

  1. grein.

Sambandið heitir Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga, skammstafað USVH. Heimili þess og varnaþing skal vera í Húnaþingi Vestra. Formaður og/eða framkvæmdastjóri er málsvari sambandsins út á við í ræðu og riti.

  1. grein

Tilgangur sambandsins er að sameina krafta hinna einstöku ungmenna- og íþróttafélaga og koma fram sem samnefnari þeirra út á við.

Tilgangi sínum hyggst sambandið ná m.a. með því:

  1. a)     að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð eða aðildarfélög USVH fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins,
  2. b)     að annast samstarf um íþróttamál við sveitarstjórn og aðra opinbera aðila innan héraðs,
  3. c)     að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt,
  4. d)     að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði,
  5. e)     að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs,
  6. f)       að staðfesta lög aðildarfélaga,
  7. g)     að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram samkvæmt gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal stjórn héraðssambandsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
  8. h)     að halda héraðsmót á hverju ári og ákveður héraðsþing nánar hvernig því skuli hagað, að hlutast til um að fyrirlestrar séu haldnir innan félaganna og að styðja og efla allt sem nytsamt og þjóðlegt er, svo sem íþróttir, félagsmál og fleira.
  9. grein.

Sambandssvæðið er Húnaþing vestra og eiga öll ungmennafélög og íþróttafélög í sveitarfélaginu rétt á að gerast aðilar að sambandinu. Félag sem óskar inngöngu í sambandið sendi stjórn USVH skriflega beiðni um það, undirritaða af stjórn félagsins og samþykkta á félagsfundi. Beiðninni skal fylgja afrit af lögum félagsins. Innganga í sambandið fer fram á næsta héraðsþingi, enda hafi félagið þá undirgengist samþykktir og reglur sambandsins. Lög aðildarfélaga skulu vera í samræmi við lög UMFÍ og ÍSÍ.

Stjórn sambandsins hefur heimild til að veita félagi bráðabirgðaaðild að USVH fram að næsta héraðsþingi.

Úrsögn úr sambandinu er aðeins lögleg hafi hún verið samþykkt á löglegum aðalfundi félagsins og skal það staðfest á héraðsþingi USVH. Aðili sem gengið hefur úr USVH getur ekki krafist endurgreiðslu á fé sem hann hefur lagt til sambandsins eða nokkurs hluta af eignum USVH.

  1. grein.

Stjórnir sambandsaðila senda starfsskýrslur sínar og félagatal til USVH.

  1. grein

Stjórn sambandsins skipa fimm menn í aðalstjórn, þ.e. formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi, en þrír eru í varastjórn. Kjörnir eru tveir skoðunarmenn og einn til vara. Kjörtímabil aðalstjórnar sé tvö ár og séu formaður og meðstjórnandi kosnir annað árið, en gjaldkeri , varaformaður og ritari hitt árið.

Varastjórn, skoðunarmenn og fulltrúi á íþróttaþing ÍSÍ séu kosnir til eins árs.

  1. grein.

Skylt er öllum félögum sambandsaðila að gegna störfum sem héraðsþingið eða stjórn kýs þá til, án tillits til þess að hvort þeir sitja fundinn eða ekki.

Stjórnin hefur heimild til að skipa nefndir til starfa milli funda eftir því sem ástæður standa til.

Stjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og fela honum framkvæmd ýmissa verkefna.

Starfsmenn sambandsins eru ekki skyldugir til að gegna störfum lengur en tvö ár í senn og geta verið lausir jafnlangan tíma.

  1. grein

Héraðsþing skal haldið fyrir 1. maí ár hvert og til þess boðað með minnst fjögurra vikna fyrirvara, t.d. með tölvupósti til formanna aðildarfélaga sem þeir staðfesta móttöku á eða á annan sannanlegan hátt. Héraðsþing er aðeins lögmætt að 2/3 fulltrúa séu mættir. Formaður aðildarfélags er sjálfkjörinn á héraðsþing. Þar að auki skal hvert félag hafa rétt til að senda fulltrúa fyrir hverja 50 félaga eða brot úr þeirri tölu. Fulltrúi er aðeins löglegur á héraðsþingi hafi aðildarfélag sent félagatal inn á félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ (FELIX) fyrir 1. apríl og skilað starfsskýrslu. Stjórn USVH sendir formönnum félaganna eyðublöð til útfyllingar fyrir kjörbréf, samkvæmt félagatali. Við atkvæðagreiðslu almennra mála og í kosningum ráði einfaldur meirihluti á héraðsþingi.

Ársreikningar, fjárhagsáætlun og skýrsla stjórnar skal send aðildarfélögum, minnst viku fyrir héraðsþing. Á hérðasþingi skal taka fyrir skýrlu stjórnar og reikninga, álit kjörbréfanefndar, tillögður lagðar fyrir þingið, nefndarstörf, ályktanir nefnda, kosningar og önnur þau mál sem þingið leggur til.

  1. grein.

Formenn og fulltrúar aðildarfélaganna hafa atkvæðisrétt á héraðs- og aukaþingum. En aðrir félagar hafa málfrelsi og tillögurétt.

Kjörbréfanefnd skal kosin í upphafi héraðsþings. Kjörbréfanefnd úrskurðar um kjörbréf fulltrúa og lögmæti þingsins.

Á Héraðsþingi skal leggja fram starfsskýrslu og endurskoða reikninga sambandsins. Reikningsárið er almanaksárið.

  1. grein.

Héraðsþing getur skipað nefndir til að hafa forystu um iðkun og keppni í einstökum íþróttagreinum sem stundaðar eru á svæðinu. Nefndum þessum skal afmarkað fjármagn. Skulu þær hafa sjálfstæðan fjárhag og starfa í samvinnu við stjórn sambandsins. Á sama hátt getur héraðsþing falið einu eða fleiri aðildarfélögum sambandsins sama hlutverk.

  1. grein.

Aukaþing skal halda ef nauðsyn krefur að mati stjórnar eða ef helmingur sambandsaðila óskar þess. Til þess skal boðað með tíu daga fyrirvara. Um fulltrúatölu gilda sömu ákvæði og fyrir héraðsþing. Ákvarðanir aukaþings gilda aðeins fram að næsta héraðsþingi.

  1. grein.

Sambandinu verður ekki slitið nema á héraðsþingi og því aðeins að 2/3 fulltrúa þingsins samþykki þá ráðstöfun. Koma þarf fram í þingboði að slíta eigi sambandinu á þinginu.

Með slíkri samþykkt er störfum þess þings tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til annars héraðsþings sex mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt með 2/3 atkvæðisbærra fulltrúa að slíta sambandinu, skulu það heita lögleg sambandsslit. Það þing tekur ákvarðanir um hvernig eigum sambandsins skuli varið.

  1. grein

Lögum þessum verður ekki breytt nema á héraðsþingi og þá því aðeins með samþykki a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða atkvæðisbærra fulltrúa. Tillögur til lagabreytinga skal senda stjórn USVH minnst þremur vikum fyrir héraðsþing og skal stjórn USVH senda tillögur sambandsaðilum til kynningar minnst tveimur vikum fyrir þing.

Á aukaþingi má ekki gera laga- og leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum að öðrum orsökum, eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt ársþing.

  1. grein

Lög þessi öðlast gildi við staðfestingu ÍSÍ og UMFÍ. Eru þar með eldri lög úr gildi numin.

Samþykkt á héraðsþingi 20. mars 2019