Lög hestamannafélagsins Þyts

1. gr.
Nafn félagsins er Hestamannafélagið Þytur. Félagssvæði þess er Vestur Húnavatnssýsla. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns. Félagið er aðili að LH og USVH og er háð lögum og samþykktum þeirra.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að efla áhuga og þekkingu á hestamennsku og hestaíþróttinni á sem breiðustum grundvelli. M.a með því að:

a) gangast fyrir kennslu og þjálfun fyrir knapa og hesta.
b) að efna til sýninga og keppni í hestaíþróttum.
c) vinna að uppbyggingu og viðhaldi á mannvirkjum félagsins.

3. gr.
Félagi getur hver orðið er þess óskar og er samþykktur af meiri hluta stjórnar félagsins.

4. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn kjörnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega annað árið ásamt einum meðstjórnanda. Þrír meðstjórnendur kosnir hitt árið. Stjórn skiptir að öðru leiti með sér verkum. Einnig eru kosnir tveir varamenn í stjórn til eins árs, tveir skoðunarmenn til eins árs ásamt 2 varaskoðunarmönnum.

5. gr.
Stjórn félagsins skipar starfsnefndir innan mánaðar frá aðalfundi. T.d. Fræðslunefnd, æskulýðsnefnd, reiðveganefnd, mannvirkjanefnd, mótanefnd og aðrar nefndir eftir því sem þurfa þykir.

6. gr.
Stjórn félagsins ber að varðveita öll gögn sem geyma heimildir um störf félagsins. S.s. fundargerðir, félagaskrá, yfirlit yfir verðlaunagripi og gefendur þeirra. Stjórn er heimilt að skipa félagsmann utan stjórnar til þessara starfa.

7. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. mars ár hvert. Aðalfundur fer með æðsta vald félagsins. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir skuldlausir félagar. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara og er fundurinn löglegur sé löglega til hans boðað. Á aðalfundi skal tekið fyrir:

1. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
2. Formaður flytur skýrslu stjórnar.
3. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar.
4. Lagabreytingar ef um slíkt er að ræða.
5. Kosningar skv. 4. gr.
6. Kosningar á þing USVH og LH þegar við á.
7. Önnur mál.

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum allra mála nema þegar um lagabreytingar er að ræða sbr. 9.gr.

8. gr.
Árgjald félagsins skal ákveðið á aðalfundi ár hvert. Greiði félagsmaður ekki árgjald sitt 2 ár í röð fellur hann út af félagaskrá og getur ekki orðið félagsmaður aftur nema að greiða skuld sína. Sá sem skuldar árgjald frá fyrra ári hefur ekki keppnisrétt á mótum sem félagið er aðili að. Varðandi úrtökumót fyrir Landsmót verður eigandi hests að vera skuldlaus við félagið.

9. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða. Lagabreytinga skal geta sérstaklega í fundarboði. Lögin skulu borin undir LH og USVH.

10. gr.
Félagið verður aðeins leyst upp á löglega boðuðum aðalfundi tvö ár í röð og verður 2/3 fundarmanna að greiða því atkvæði. Verði félagið þannig leyst upp skal eignum þess komið fyrir í vörslu Húnaþings vestra þar til annað sambærilegt félag yrði stofnað í Vestur Húnavantssýslu.

11. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.