Framkvæmdanefnd Unglingalandsmóts UMFÍ hefur ákveðið í samræmi við sóttvarnarlækni og Almannavarnir að fresta mótinu um ár. Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og hefur hún verið ein af stærstu og fjölmennustu hátíðunum um verslunarmannahelgina. Mótið er aldrei haldið á sama stað tvö ár í röð og átti það að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg.
Eins og á fyrri mótum mátti búast við hátt í 10.000 mótsgestum, þátttakendum á 11-18 ára aldri, foreldrum þeirra, systkinum og öðrum. Undirbúningur mótsins hefur staðið yfir um langt skeið. Dagskráin var fullkláruð og átti að bjóða upp á um 20 keppnisgreinar alla verslunarmannahelgina og tónleika á kvöldin ásamt fjölda annarra viðburða og afþreyingar. Skráning hefur jafnframt verið í fullum gangi síðan um mánaðamót.
Minnisblað yfirvalda um Unglingalandsmót UMFÍ
Almannavarnir Ríkislögreglustjóra, sóttvarnarlæknir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa sent frá sér minnisblað vegna Unglingalandsmótsins segir að farið hafi verið yfir mögulegar útfærslur mótsins á Selfossi og með hvaða hætti hægt sé að uppfylla leiðbeiningar sóttvarnarlæknis um fjöldatakmarkanir á samkomum.
Í minnisblaðinu segir orðrétt:
„Á síðast liðnum vikum hafa verið haldin íþróttamót og samkomur sem voru fjölmennari en 500 manns og lagt upp með að uppfylla sóttvarnir með hólfaskiptingu. Í kjölfarið hefur komið upp að verulegur misbrestur var á, þrátt fyrir góðan hug og mikla skipulagningu.
Ljóst er að ef komi upp hópsmit í kjölfar slíkra hátíða verður ómögulegt að rekja smitið. Þá væri öll vinna, góður árangur smitrakningar og heftun útbreiðslu veirunnar farin fyrir bý.
Það er sameiginlegt mat almannavarna- og sóttvarnaryfirvalda að ekki sé ráðlegt að halda Unglingalandsmót UMFÍ þar sem ómögulegt sé að uppfylla allar gildandi kröfur um sóttvarnir vegna COVID-19.“