Search

Dagbjört Dögg Íþróttamaður USVH árið 2019

Dagbjört Dögg Karlsdóttir var í dag kjörin Íþróttamaður USVH árið 2019 á Staðarskálamótinu í körfubolta sem haldið var í dag í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga.

Dagbjört Dögg spilar körfubolta með úrvalsdeildarliði Vals og var valin besti varnarmaður Vals á tímabilinu. Á þessu ári varð Dagbjört Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Dagbjört er í 6.sæti yfir stigahæstu Íslendingana í úrvalsdeild kvenna og skilar að meðaltali 11,22 stigum í leik. Hún hefur nokkrum sinnum verið valin í lið umferðarinnar í Dominosdeildinni. Dagbjört var fyrirliði U20 landsliðs kvenna og var hún framlags- og stigahæst í liðinu á Evrópumótinu í Kósovó og var valin í lokahóp A landsliðsins kvenna núna í haust.

Í öðru sæti varð Jóhann B. Magnússon knapi úr Hestamannafélaginu Þyt. Jóhann varð í 1.sæti í 100m skeiði á Reykjavíkurmeistaramótinu og 3.sæti í 100m skeiði á Íslandsmótinu. Hann varð alls 8 sinnum í 1.sæti í skeiði og var 34 sinnum í verðlaunasæti á árinu. Jóhann er í 2 sæti á WR heimslistanum í 100 m skeiði með meðaltalstímann 7,39 og var tilnefndur sem skeiðknapi ársins af Landsambandi hestamannafélaga sem og knapi ársins hjá Hestamannafélaginu Þyt.

Í þriðja sæti varð Helga Una Björnsdóttir knapi úr Hestamannafélaginu Þyt. Helga er íslandsmeistari í T2 slaktaumatölti og varð Reykjavíkurmeistari í sömu grein. Helga var valin í landsliðhóp Íslands sem tók þátt á heimsmeistaramótinu í Berlín.

Stjórn USVH óskar Dagbjörtu, Jóhanni og Helgu til hamingju með árangurinn sem og öðrum þeim sem tilnefndir voru.Deila frétt:

Tengdar fréttir