Á dögunum var fyrsti fyrirlestur í fyrirlestraröð Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga haldinn í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga. Þar komu þær systur og knattspyrnukonur Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur og héldu fyrirlestur sem fjallaði um andlegan styrk og mikilvægi fjölbreyts mataræðis, var þokkalega sóttur af íbúum svæðisins og voru milli 30 og 40 manns mætt til að hlíða á þær systur.
Elísa sem er matvælafræðingur og í námi í íþrótta næringafræði fór vel yfir næringu og hversu mikilvægt það er að hafa jafnvægi í inntöku á kolvetnum, fitu og próteinum í staðinn fyrir að taka eitthvað eitt alveg út. Hún lagði ríka áherslu á heilbrigt samband við sykur en um leið forðast vörur sem innihalda viðbætt efni eins og orkudrykki og stangir. Hún nefndi einnig ágæti þess að setja sér heilbrigð markmið í tengslum við mat þegar matarræðið er skoðað, taka stutt en markvís skref í átt að heilbrigði og gefast ekki upp þó dottið sé af sporinu, heldur halda ótrauð áfram.
Margrét Lára, fyrrum landsliðs fyrirliði kvenna og nú klínískur sálfræðingur ræddi um andlegan styrk og hvernig sjálfstraust, áskorun, skuldbinding og stjórn spila þar stórann þátt. Hún tók dæmi af ferli þeirra systra tengdum meiðslum og nefndi hversu mikilvægur stuðningur annarra er til að byggja upp sjálfstraust, bæði almennt og í erfiðum aðstæðum, þegar takast þarf á við stórar áskoranir í lífinu. Þannig væri auðveldara að takast á við þær skuldbindingar sem við þurfum oft að taka, vega og meta það sem skiptir máli, til að hafa stjórn á þeim og því sem kann að koma uppá á meðan. Það er margt sem komið getur uppá á meðan í ferlinu og eins og Lennon orðaði svo vel, “life is what happens when we are busy making other plans”. Margrét nefndi að lokum að það væri mikilvægt að eigna sjálfum sér þann árangur sem að næst hverju sinni, þó stuðningur annarra sé mikilvægur, því þannig styrkist einstaklingurinn sjálfur og hans trú á sjálfum sér.
Við í Ungmennasambandi Vestur-Húnvetninga þökkum þeim systrum vel fyrir að koma til okkar og vonum að þið ykkar sem mættuð hafið haft gaman af. 
Fyrirlestraröðin er styrkt af UMFÍ, Rannís, Ungmennaráði og Sveitafélaginu Húnaþingi-Vestra.