Search

Hugleiðing um lýðheilsu.

Nýverið var viðbygging við íþróttamiðstöðina í Húnaþingi-Vestra tekin formlega í notkun að viðstöddu fjölmenni og héldu þar tölu framkvæmdastjóri Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga, Anton Scheel Birgisson, Þorleifur Karl Eggertsson oddviti Sveitastjórnar Húnaþings-Vestra og Guðmundur Grétar Magnússon fulltrúi Ungmennaráðs Húnaþings-Vestra.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að rækta bæði líkama og sál. Og því má segja að íþróttamiðstöðin sé hjarta samfélagsins að því leyti.Það er dýrmætt að íbúar hafi tækifæri til að stunda fjölbreytta líkamsrækt, hvort sem það er í sundi, úti í náttúrunni eða á skipulögðum  íþróttaæfingum. Þessi aðstaða er liður í því að fjölga þeim kostum sem fólki býðst til líkamsræktar og stækkar um leið hóp þeirra sem getur nýtt sér þennan kost. Til dæmis hefur aðgengi fyrir fatlaða verið stórbætt og hægt að stunda jafn ólíkar íþróttir og  kraftlyftingar og jóga undir sama þaki.

Góð lýðheilsa er mikilvæg, sérstaklega á þessum tímum þegar þjóðin er að eldast og lifnaðarhættir að breytast. Það getur leitt til einangrunar, veikinda og dregið úr tækifærum fólks til að framkvæma hluti sem okkur þykir eðlileg í daglegu lífi sé heilsunni ekki sinnt. Með það að leiðarljósi er öll uppbygging á íþróttamannvirkjum mikilvæg. Íþróttir sem líkamleg hreyfing eru samnefnari yfir fjölbreytta hreyfingu sem er um leið partur af lýðheilsu. Góð lýðheilsa er samspil líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu og er mikilvægt að hlúa vel að öllum þessum þáttum fyrir fólkið okkar, smátt sem stórt. Bætt íþróttaaðstaða er því mikilvæg að því leiti en aðeins hluti af því sem gera þarf til að vel verði.

Það er von okkar í Ungmennasambandi Vestur-Húnvetninga að þessi nýja aðstaða verði heilsueflandi fyrir samfélagið okkar og að lýðheilsa verði höfð sem viðmið ákvarðana þegar horft er fram veginn í héraðinu öllu.

Deila frétt:

Tengdar fréttir