Lög Ungmennafélagsins Víðis

1.grein

Félagið heitir Víðir, skammstafað U.M.F.V. Starfsvæðið er Húnaþing vestra. Heimili þess og varnarþing er Félagsheimilið Víðihlíð. Formaður er málsvari þess út á við bæði í ræðu og riti.

2.grein

Tilgangur félagsins er:

  1. að efla og vernda íslenskt þjóðerni, mál og menningu.
  2. að  vinna að hvers konar andlegum framförum og sömuleiðis verklegum framkvæmdum.
  3. að vinna að hvers konar æskulýðsstarfi sem og almenningsíþróttum. 

3.grein

Allir félagsmenn skuli þúast.

4.grein

Félagi getur hver orðið, karl eða kona sem orðinn er 6 ára að aldri. Hver félagi greiði árstillag til félagsins eftir ákvörðun aðalfundar hverju sinni. 

5.grein

Á aðalfundi skal kjósa stjórn félagsins. Skipa hana 3 menn, formaður, ritari og gjaldkeri, kosnir hver um sig til tveggja ára í senn. Þannig að formaður sé kosinn annað árið en gjaldkeri og ritari hitt árið. Á sama hátt skal kjósa varastjórn.

6.grein

Störf stjórnarinnar eru þessi: Hún skal annast allar framkvæmdir félagsmála, en þá má fela sérstökum nefndum ýmis störf. Formaður skal skrifa undir reikninga félagsins ásamt gjaldkera, þegar þeir hafa verið samþykktir. Einnig skal hann á aðalfundi félagsins gera grein fyrir starfsemi þess á liðnu ári. Hann skal og setja fundi félagsins og geri tillögu að fundarstjóra. Ritari færir inn í gerðarbók félagsins fundargerðir félagsfunda og stjórnarfunda. Einnig heldur hann félagaskrá. Einnig er hann skyldur að skrifa það, er félagið þarfnast.           

UMFV 2023

Gjaldkeri  tekur á móti inntektum félagsins og annast útgjöld þess. Skal hann halda bók yfir tekjur, gjöld og eignir félagsins. Í lok reikningsárs sem er almanaksárið gerir hann reikning og fjárhag félagsins og leggur hann fram fyrir aðalfund ásamt fylgiskjölum og athugasemdum skoðunnarmanna.

7.grein

Á aðalfundi skal kjósa 2 skoðunnarmenn og 2 til vara til tveggja ára. Gangi þeir úr sitt árið hvor. Ekki má velja þá úr hópi stjórnar eða varastjórnar. Þeir skulu yfirfara reikninga félagsins og önnur skjöl, er leggjast eiga fyrir aðalfund.

8.grein

Enginn félagi er skyldur að hafa á hendi meira er tvö félagsstörf samtímis og ekki lengur en 3 ár í senn sama starf. Getur hann þá verið laus í 3 ár. Annars eru allir félagsmenn skyldir að genga öllum störfum félagsins með þeim undantekningum, sem lögin ákveða.

9.grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 15. apríl ár hvert og skal til hans boðað með dagskrá og minnst fimm daga fyrirvara með almennri auglýsingu. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Störf aðalfundar eru einkum þessi: Þar eru allir starfsmenn félagsins kosnir, úrskurðaðir reikningar þess og gerð grein fyrir athöfnum þess á liðnu ári, teknar ákvarðanir um félagsstarfið næsta ár og annað það gert, sem og lög bjóða.

10.grein

Atkvæðisrétt á fundum hafa allir félagar. Einfaldur meirihluti ræður ávallt úrslitum mála við athvæðagreiðslu, nema þar sem lög félagsins eða fundarsköp mæla öðruvísi fyrir. Atkvæði eru jafnan greidd með því að rétta upp hendina, þó má viðhafa nafnakall. Kosningar í stjórn og nefndir skulu fara fram skriflega.

11.grein

Úrsögn úr félaginu afhendist formanni, sem getur hennar á næsta fundi og gildir hún frá þeim tíma. Er stjórn félagsins heimilt að fella niður úr reikningum  félagsins ógoldin árgjöld viðkomandi félaga. 

UMFV 2023

12.grein

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins enda sé þeirra getið í fundarboði.  Til lagabreytinga þarf ¾ hluta greiddra atkvæða.

13.grein

Félaginu verður ekki slitið nema tveir lögmætir félagsfundir samþykki slitin með minnst ¾ hlutum greiddra atkvæða. Skal þá afhenda Húnaþingi vestra eignir félagsins.

14.grein

Lög þessi öðlast gildi 26. mars 2023 og komi í stað laga sem fyrst tóku gildi 26. janúar 1930.

Gert í Þórukoti 26. mars 2023 eftir lagabreytingar sem samþykktar voru á aðalfundi félagsins 26. mars 2023

Deila frétt:

Tengdar fréttir