Hilmir Rafn Mikaelsson valinn Íþróttamaður ársins hjá USVH 2024

Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga (USVH) hélt á dögunum viðburð á Sjávarborg þar sem fram fór val á Íþróttamanni ársins 2024. Íþróttafólk úr Húnaþingi vestra hefur náð einstökum árangri á árinu og voru eftirtaldir einstaklingar tilnefndir í ár fyrir framúrskarandi afrek á sínu sviði:

Elvar Logi Friðriksson

Elvar Logi hefur átt sterkt keppnisár í hestaíþróttum. Hann tók þátt í þremur innanhússdeildum á liðnu ári (KS, Vesturlandsdeildin og 1. deildin) auk þess að keppa á fjölda móta bæði innan heimabyggðar og utan. Með hestinum Teningi frá Víðivöllum komst hann í B-úrslit á Landsmóti eftir að vinna úrtöku í efsta sæti – frábær árangur sem sýnir fram á fjölhæfni og metnað.

Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal

Guðmar, sem er aðeins 18 ára, hefur náð einstökum árangri í hestaíþróttum. Hann varð Reykjavíkur-, Íslands- og Norðurlandameistari í ungmennaflokki og náði einnig 3. sæti í einstaklingskeppni fullorðinna í KS deildinni. Guðmar hefur með árangri sínum fest sig í sessi bæði innan síns aldurshóps og á meðal fullorðinna.

Hilmir Rafn Mikaelsson

Hilmir Rafn hefur verið áberandi í knattspyrnu á árinu 2024. Hann lék með norska úrvalsdeildarliðinu Kristiansund BK og sýndi mikinn stöðugleika í sínum 27 leikjum þar sem hann skoraði 3 mörk og lagði upp nokkur til viðbótar. Auk þess spilaði hann með íslenska U21 landsliðinu og skoraði mikilvægt mark. Hilmir hefur verið glæsilegur fulltrúi bæði fyrir Húnaþing vestra og íslenska knattspyrnu á alþjóðavettvangi.

Saga Ísey Þorsteinsdóttir

Saga Ísey hefur spilað með bæði 3. flokki og meistaraflokki Tindastóls í efstu deild á síðasta ári. Hún er fyrsta konan frá Húnaþingi vestra sem leikur í efstu deild í knattspyrnu. Saga Ísey er frábær framherji sem á framtíðina fyrir sér í íslenskri knattspyrnu.


Hilmir Rafn valinn Íþróttamaður ársins 2024

Eftir niðurstöður stigagjafar var það Hilmir Rafn Mikaelsson sem hlaut titilinn Íþróttamaður ársins hjá USVH 2024. Hilmir hefur sýnt framúrskarandi árangur í knattspyrnu og verið fyrirmynd fyrir unga leikmenn.

Stjórn USVH óskar Hilmi innilega til hamingju með viðurkenninguna og þakkar öllum sem voru tilnefndir fyrir sitt framlag til íþróttalífsins. Þetta ár sýnir enn og aftur hversu öflugt og fjölbreytt íþróttastarf á sér stað í Húnaþingi vestra og við hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi afrekum okkar frábæra íþróttafólks.